Sunday, March 29, 2009

Guð láti gott á vita: Viðurkenning á því að ekki er eðlilegt að heimilin beri allan skaðann af efnahagshruninu

Tillaga um almennar aðgerðir vegna verðtryggðra lána heimilanna var samþykkt á landsfundi Samfylkingarinnar með þorra atkvæða í dag.

Tillagan hljóðar svo “Leitað verði sanngjarnra leiða til að skipta ófyrirséðu tjóni milli lántakenda og lánveitenda vegna efnahagshrunsins og hækkunar verðtryggðra lána því samfara.”

Fyrsti flutningsmaður tillögunnar er Sigrún Elsa Smáradóttir. Meðflutningsmenn eru Benedikt Sigurðsson, Mörður Árnason, Kristín Erna Arnardóttir, Guðrún Elín Arnardóttir, Marsibil Sæmundardóttir, Dofri Hermansson, Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Stefán Benediktsson, Anna Pála Sverrisdóttir og Ingólfur H. Ingólfsson.

Samþykkt tillögunnar er mikilvægt skref. Óumdeilt er að efnahagshrunið var ófyrirsjáanlegt fyrir allan almenning. Verðbólguskotið sem því fylgdi hafði ekkert með þenslu og aukinn kaupmátt í samfélaginu að gera. Því er um að ræða ófyrirséð tjón vegna hruns á íslensku krónunni, sem eðlilegt er að skipta á milli lántakenda og lánveitanda. Samþykktin er viðurkenning á því að ekki sé eðlilegt að heimilin beri allan skaðann af þessu tjóni. Samþykktin er því mikilvægur grunnur þess að ásættanleg lausn finnist sem báðir aðilar geti sætt sig við og málin verði leyst af raunsæi og án yfirboða.

Sigrún Elsa Smáradóttir, Borgarfulltrúi.
899-8659

No comments: